Fótbolti

Dida fékk tveggja leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dida var bundinn við börurnar og hélt kælipoka við andlitið sitt eftir snertinguna afdrifaríku.
Dida var bundinn við börurnar og hélt kælipoka við andlitið sitt eftir snertinguna afdrifaríku. Nordic Photos / AFP

Dida, markvörður AC Milan, var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir leikaraskap í leik liðsins gegn Celtic í Meistaradeildinni.

Eftir að Celtic skoraði sigurmarkið seint í leiknum réðst óður stuðningsmaður liðsins inn á völlinn og snerti Dida á leiðinni. Markvörðurinn brasilíski gerði sig fyrst líklegan til að elta hann en ákvað svo að láta sig falla með tilþrifum í grasið.

Hann var svo borinn af velli og hélt hann kælipoka við andlitið sitt. Eftir leikinn var sagt að hann hefði fengið högg á hálsinn.

Aganefnd Evrópska knattspyrnusambandsins féll ekki fyrir þessu og dæmdi Dida í tveggja leikja bann.

Celtic var sömuleiðis sektað um 25 þúsund pund og voru forráðamenn liðsins sáttir við þá útkomu.

Hið sama er ekki hægt að segja um lögfræðing AC Milan, Leandro Cantamessa.

„Ég hef ekkert út á Celtic að setja en ég er bara að reyna að átta mig á hlutunum. Eitt var atvikið og hitt aðeins afleiðing af því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×