Erlent

Kalabríu mafían hreiðrar um sig í Evrópu

Óli Tynes skrifar
Frá morðstaðnum í Duisburg í Þýskalandi.
Frá morðstaðnum í Duisburg í Þýskalandi.

Kalabríu mafían hefur hreiðrað um sig í Evrópu og þrífst þar vel, að sögn Ítalsks saksóknara. Það er vegna þess að í Vestur-Evrópu eru ekki til nein samræmd stefna til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Nicola Gratteri, sem hefur verið að rannsaka morð á sex ítölum í Þýskalandi í ágúst síðastliðnum, segir að mafían sé eins og fjölþjóða fyrirtæki, með útibú í öllum heimsálfum.

Gratteri segir að mafían velti yfir 2500 milljörðum króna árlega og standi traustum fótum í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Suður-Ameríku. í Evrópu hafi hún hreiðrað um sig í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Frakklandi og á Spáni.

Gratteri segir að mafíunni hafi verið mikill akkur í því að Evrópusambandið er að gera Evrópu að einu markaðssvæði og öllum sé frjálst að ferðast innan þess. Hann segir að Vesturlönd verði að gera sér grein fyrir því að mafían sé ekki lengur bara ítalskt vandamál heldur alþjóðlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×