Erlent

Þögult á götum Mjanmar

Guðjón Helgason skrifar
Ibrahim Gambari, sérlegur sendifulltrúi SÞ, er nú á leið til Mjanmar til viðræðna við herforingjastjórina þar.
Ibrahim Gambari, sérlegur sendifulltrúi SÞ, er nú á leið til Mjanmar til viðræðna við herforingjastjórina þar. MYND/AP

Þögult var á götum Mjanmar í morgun. Þar hefur komið til blóðugra átaka síðustu daga vegna mótmæla gegn herforingjastjórn landsins. Her- og lögreglumenn hafa tekið hart á mótmælendum síðustu þrjá daga. Ekki er vitað með vissu hve margir hafa fallið í átökunum.

Yfirvöld segja tíu manns en sænskur sendifulltrúi segir næri tvö hundruð hafa fallið. Öryggissveitir eru á vakt á hverju götuhorni í Jangon - stærstu borg landsins - þar sem búddamunkar hafa leitt mótmælin frá því í síðustu viku. Engin mótmæli hafa verið þar eða í borginni Mandalay í morgun.

Sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna er væntanlegur til Mjanmar í dag til viðræðna við æðstu fulltrúa herforingjastjórnarinnar. Hann mun leggja áherslu á að þeir hefji viðræður við fulltrúa stjórnarandstæðinga svo hægt verði að binda enda á átök í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×