Erlent

Blackwater í bobba

Kristinn Hrafnsson í Írak skrifar

Bandarísk þingnefnd gagnrýnir harðlega starfsemi vopnaðra verktaka í Írak, sem m.a. eru sakaðir um að hafa myrt ellefu óbreytta Íraka. Um hundrað þúsund vopnaðir verktakar eru í landinu.

Kristinn Hrafnsson er í Írak á vegum fréttaskýringaþáttsins Kompás. Hanns segir verktakafyrirtækið Blackwater, sem annast meðal annars gæslu sendifulltrúa í Írak, þegar til rannsóknar vegna dauða 11 Íraka sem féllu fyrir byssukúlum starfsmanna fyrirtækisins fyrr í þessum mánuði. Sjálfvörn segja Blackwater menn - Írakar eru á öðru máli og vildu fyrirtækið úr landi. Bandaríkjamenn fengu því hnekkt - enda fyrirtækið með margar milljóna dala samninga við bandarísk yfirvöld.

Ný skýrsla bandarískrar þingnefndar eykur enn á vanda Blackwater. Þar er fjallað um hrottafengin morð á fjórum verktökum þeirra í Fallujah 2004. Þingnefndin gagnrýnir starfsemi Blackwater harðlega - ekki hafi verið hugað að öryggismálum. Viðvaranir um ástandið í Fallujah hafi verið hundsaðar. Vitni sem komu fyrir nefndina segja starfsemi Blackwater hafa verið illa skipulagða.

Utanríkisráðuneytið bandaríska rannsakar nú starfsemi Blackwater og annarra verktaka í landinu. Þeir sem gagnrýna fyrirtækin segja þau hafa tekið yfir mörg störf sem hermenn hafi sinnt áður og það án þess að nægilega skýrar reglur gildi um starfsemi þeirra eða fullvissa um að þau geti sinnt verkunum. Talið er að um hundrað þúsund vopnaðir verktakar starfi nú hér í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×