Fótbolti

Meistaradeildin er erfiðari

Juande Ramos
Juande Ramos NordicPhotos/GettyImages

Juande Ramos, þjálfari Sevilla, sagði tap sinna manna gegn Arsenal á Emirates í kvöld vera talandi dæmi um það hvað Meistaradeild Evrópu sé erfið deild. Hann vill þó ekki meina að hans menn hafi verið lélegir í kvöld.

Tvöfaldir Evrópumeistarar félagsliða áttu erfitt kvöld í Lundúnum og töpuðu 3-0 fyrir sprækum ungliðum Arsenal. "Við erum að spila í alveg nýrri keppni núna og hún er mikið erfiðari en sú sem við vorum í á síðustu leiktíð. Hérna mætum við liðum eins og Arsenal sem í augnablikinu er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni," sagði Ramos. Hann vill þó ekki meina að Arsenal sé miklu betra lið en Sevilla.

"Mér fannst við dálítið óheppnir í fyrsta og þriðja markinu og mér finnst úrslitin ekki gefa rétta mynd af því hve jöfn liðin eru. Þetta sýnir hinsvegar hvað gerist ef þú gefur liði eins og Arsenal færi á að gera út af við þig," sagði Ramos, sem hefur verið orðaður mikið við Tottenham á síðustu vikum og segja má að hann hafi fengið að kynnast því vel í kvöld hvernig er að vera stjóri Tottenham eftir útreiðina á Emirates.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×