Erlent

Næstráðandi Rauðu Kmerana handtekinn

Guðjón Helgason skrifar
Nuon Chea, næstráðandi Rauðu Kmeranna í Kambódíu,  handtekinn og færður í þyrlu í heimabæ sínum Pailin í dag.
Nuon Chea, næstráðandi Rauðu Kmeranna í Kambódíu, handtekinn og færður í þyrlu í heimabæ sínum Pailin í dag. MYND/AP

Næstráðandi Rauðu Kmeranna í Kambódíu var handtekinn í dag. Eftir er að ákveða hvort hann verði kærður fyrir þjóðarmorð. Sérstakur dómstóll Sameinuðu þjóðanna rannsakar nú fjöldamorð Kmeranna á valdatíma þeirra.

Talið er að Rauðu Kmerarnir hafi drepið nærri tvær milljónir manna á valdatíð sinni í Kambódíu árin 1975 til 79. Ekki er lengur hægt að sækja leiðtoga Kmeranna, Pol Pot, til saka - hann lést 1998. Nuon Chea - næstráðandi eða bróðir númer tvö eins og hann var kallaður - er hins vegar enn á lífi - áttatíu og tveggja ára.

Hann var handtekinn á heimili sínum í Pailin í norð-vestur Kambódíu, nærri landamærunum að Taílandi. Flogið var með hann til höfuðborgarinnar, Phnom Penh, þar sem hann mun svara spurningum dómara við sérskipaðan dómstól Sameinuðu þjóðanna. Síðan verður ákveðið hvort hann verði kærður.

Kaing Guek Eav, betur þekktur sem Duch - sem rak fangelsi Rauðu Kmeranna, var sá fyrsti sem dómstóllinn lét handtaka. Hann var kærður fyrir glæpi gegn mannkyninu í síðasta mánuði.

Nuon Chea sagði í viðtali í síðasta mánuði að hann vildi sanna sakleysi sitt. Hann ætti vissulega sök á ýmsu sem gerðist á valdatíma Kmeranna en hann bæri ekki ábyrgð á morðunum. Hann væri þó sekur um að hafa ekki verndað landa sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×