Fótbolti

Benítez: Vonandi lærir Pennant af þessu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Pennant fékk rauða spjaldið eftir þetta brot.
Pennant fékk rauða spjaldið eftir þetta brot.

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, segist hafa verið að íhuga að taka Jermaine Pennant af leikvelli rétt áður en hann fékk rauða spjaldið gegn Porto í kvöld. Leikurinn endaði 1-1 en þannig var staðan þegar þrettán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og Pennant fékk rautt.

Hann fékk réttilega sitt annað gula spjald og þar með rautt. „Ég get ekki kvartað yfir ákvörðun dómarans. Það var hárrétt hjá honum að reka Jermaine af velli," sagði Benítez.

„Ég vona að Jermaine læri af þessari reynslu. Tækling í þessari aðstöðu var alls ekki nauðsynleg. Það er illskiljanlegt að hann hafi gert þetta, við vorum búnir að segja honum að vera rólegum og ekki fara í svona tæklingar. Ég var farinn að íhuga að taka hann af velli en fékk ekki tíma til þess."

Benítez var ekki sáttur við spilamennsku Liverpool í fyrri hálfleik. „Við vorum virkilega slakir og eigum engar afsakanir. Þetta var hræðileg byrjun sem er óútskýranleg því við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn. Þetta batnaði til muna í seinni hálfleik," sagði Benítez.

Hann virtist ánægður með stigið. „Við vorum að spila gegn sterku liði á útivelli og jafntefli eru ekki slæm úrslit."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×