Erlent

Mikill vindsnúningur þegar vélin fórst

Óli Tynes skrifar
Frá slysstað í Thaílandi.
Frá slysstað í Thaílandi.

Háttsettur embættismaður í taílensku flugumferðarstjórninni segir að mikill vindsnúningur hafi orðið í þann mund sem vélin sem fórst á Phuket-flugvelli var að lenda. Áttatíu og níu manns fórust þegar vélin brotlenti, og brann. Embættismaðurinn segir að flugmenn vélarinnar hafi vitað af þessum vindsnúningi 

Það var mikið rok og rigning þegar vélin var að lenda. Farþegar sem lifðu slysið af töluðu um úrhelli og tré sem sveigðust í vindinum þegar hún var í aðflugi. Flugvélar lenda eins mikið upp í vindinn og stefna flugbrautarinnar leyfir. Snöggar breytingar á vindátt geta verið hættulegar. Ekki síst ef vindurinn snýst þannig að hann blási á eftir vélinni. Þá lækkar lendingarhraði hennar jafn mikið og vindhraðinn er.

Ef vindhraðinn í bakið er nógu mikill getur það valdið því að vélin missir flugið að verulegu leyti. Hún hrapar nánast lóðrétt niður og skellur til jarðar af miklu afli. Þá er voðinn vís.

Fyrrnefndur embættismaður segir að tveir flugmenn sem lentu á undan óheillavélinni hafi tilkynnt um mikinn vindsnúning. Flugumverðarstjóri hafi endurtekið þá aðvörun til vélarinnar og flugstjórinn hafi kvittað fyrir móttöku.

Forstjóri flugfélagsins One-Two-Go segir hinsvegar að þessar vangaveltur séu gersamlega ótímabærar, enda rannsókn á slysinu rétt að hefjast. Flugstjóri vélarinnar hafi verið einna af reyndustu flugmönnum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×