Fótbolti

Liverpool án þriggja manna til Portúgal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Arne Riise í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðastliðið vor.
John Arne Riise í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðastliðið vor. Nordic Photos / Getty Images

John Arne Riise, Mohamed Sissoko og Harry Kewell munu allir verða eftir á Englandi þegar Liverpool ferðast til Portúgal þar sem liðið mætir Porto í A-riðli Meistaradeildarinnar á morgun.

Riise meiddist á nára í leik með norska landsliðinu í síðustu viku. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Fabio Aurelio er kominn í hóp liðsins á nýjan leik eftir að hafa jafnað sig á sínum meiðslum.

"Fabio hefur lagt hart að sér í endurhæfingu sinni og gæti reynst okkur dýrmætur," sagði Rafa Benitez, stjóri Liverpool.

Peter Crouch og Andriy Voronin voru í fremstu víglínu Liverpool gegn Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni um helgina en fastlega er búist við því að Fernando Torres verði í byrjunarliðinu í morgun. Þá á Benitez einnig Hollendinginn Dirk Kuyt inni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×