Sport

Isinbayeva og og Richards deila gullpottinum

Gullstúlkurnar Isinbayeva og Richards sátu fyrir eftir sigurinn
Gullstúlkurnar Isinbayeva og Richards sátu fyrir eftir sigurinn NordicPhotos/GettyImages

Stangastökkvarinn Yelena Isinbayeva og 400 metra hlauparinn Sanya Richards deildu með sér milljón dollara gullpottinum í Berlín í dag, en þetta var lokamótið í gulldeildinni í frjálsum íþróttum. Báðar voru þær í algjörum sérflokki á mótunum í sumar.

Richards, sem kemur frá Bandaríkjunum, tryggði sér helminginn af gullpottinum í ár eftir að hafa þurft að skipta honum með þremur öðrum íþróttamönnum í fyrra. Hún sigraði með yfirburðum í úrslitahlaupinu í 400 í dag þegar hún setti besta tíma ársins 49,27 sekúndum og kom í mark meira en sekúndu á undan næstu konu.

Isinbayeva átti enn náðugri dag í stangarstökkinu þar sem hún hefur haft fáheyrða yfirburði í greininni undanfarin ár. Heimsmetshafinn fór yfir 4,62 metra, 4,77 og svo 4,83 metra í fyrstu tilraun og það var nóg til að tryggja sigurinn þar sem helsti keppinautur hennar Svetlana Feofanova felldi þá hæð þrisvar.

"Þetta var mikil vinna en ég er alltaf með nóg sjálfstraust. Nú ætla ég að nota þessa peninga til að hjálpa fátæku börnunum heima í Volgograd. Ég hef enn ekki ákveðið hvernig ég fer að því, en ég bý við fjárhagslegt öryggi og get orðið leyft mér það," sagði hin geðþekka Isinbayeve. Hún reyndi raunar að bæta heimsmet sitt í keppninni í dag en felldi 5,02 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×