Erlent

Sendiskrifstofa og rammasamningur

Guðjón Helgason skrifar

Færeyingar opnuðu í dag sendiskrifstofu í Reykjavík. Við það tækifæri var undirritaður rammasamningur um samstarf Íslendinga og Færeyinga í heilbrigðismálum.

Færeyingjar reka fyrir sendiskrifstofur í Belgíu á Englandi en þar er það gert í samstarfi við Dani. Öðru máli gegnir um skrifstofuna í Reykjavík sem opnuð var síðdegis. Þar blaktir danski fáninn ekki til jafns við þann færeyska.

En áður en hún var opnuð sæmdi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Jóhannes Eidesgaard, lögmann Færeyinga, stórriddarakrossi með stjörnu fyrir framlag sitt til að styrkja samstarf landanna.

Eidesgaard segir skrifstofuna hafa mikla þýðingu bæði fyrir Færeyinga og Íslendinga. Með henni verði samstarf þjóðanna skilgreint betur. Hægt verði að byggja frekar á fyrri samningum.

Um leið og skrifstofan var opnuð undirrituðu Eidesgaard og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, rammasamning um samstarf Íslendinga og Færeyinga í heilbrigðismálum. Utanríkisráðherra segir vilja til að auka samstarf á þeim vettvangi og nú geti Færeyingar jafnvel sótt sérhæfða þjónustu til Íslands sem annars sé ekki hægt að veita eða byggja upp í Færeyjum.

Opnun sendiskrifstofunnar verður svo fagnað með tónlist og söng í Norræna húsinu klukkan tíu í kvöld. Þá skemmta helstu stjörnur Færeyinga - Jensína Olsen, Budam og X-Factor sigurvegarinn Jegvan Hansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×