Erlent

Nýtt myndband í tilefni dagsins

Guðjón Helgason skrifar

Sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin hinn 11. september 2001. Af því tilefni hefur Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída, sent frá sér nýtt myndband þar sem hann lofsyngur einn árásarmannanna.

Það var upp úr hádegi þann ellefta september 2001 sem tveimur farþegaflugvélum var flogið á Tvíburaturnana svokölluðu í World Trade Center í New York í Bandaríkjunum. Vélunum hafði verið rænt og flogið á turnana. Þriðju vélinnil var síðan flogið á Pentagon, höfuðstöðvar varnarmálaráðuneytisins Bandaríska, í Washington. Fjórða vélin hrapaði síðan á engi í Pennsylvaníu.

Í nýju myndbandi sem Osama bin Lade, leiðtoga al-kaída hryðjuverkasamtakanna, er sagður hafa sent frá sér í tilefni þess að sex ár eru liðin frá ódæðunum, er einn árásarmannanna, Walid al-Shehri - einnig þekktur sem Abu Mus´ab, lofsunginn. Sá er sagður hafa verið í flugvélinni sem var flogið á norðurturn World Trade Center.

Sýnd er upptaka sem hann gerði nokkrum dögum fyrir árásina þar sem hann hvetur múslima til að berjast agegn leiðtogum sem vinni með Vesturveldunum.

Ekki hefur fengist fullvissa um að myndbandið sé frá bin Laden. AP fréttastofunni barst það frá eftirlitsstofnun í Washington en það hefur enn ekki verið birt á vesíðum öfgamanna líkt og oftast er gert með slíkt efni.

Bin Ladens er enn leitað víða um heim og hann ýmist talinn fara huldu höfði í Afganistan eða í landamærahéruðum Pakistans. Í viðtali í morgun fullyrti Rangeen Dadfar Spanta, utanríkisráðherra Afganistans, að bin Laden væri ekki í felum þar í landi. Hann sagðist þó ekki hafa neinar upplýsingar um hvar hann væri niðurkominn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×