Erlent

Bush íhugar heimflutning frá Írak

Óli Tynes skrifar
George Bush, forseti Bandaríkjanna.
George Bush, forseti Bandaríkjanna.

George Bush forseti Bandaríkjanna staðfesti í dag að hann væri byrjaður að hugsa um heimflutning bandarískra hermanna frá Írak, í takt við pólitíska og hernaðarlega þróun þar í landi. Bush sagði þetta á fundi með fréttamönnum í Ástralíu í dag.

Forsetinn setti marga fyrirvara. Hann sagðist ekki hafa neinn áhuga á að setja einhverjar dagsetningar sem hefðu enga þýðingu. Bandarískir hermenn væru í Írak til þess að ná ákveðnum markmiðum. Í næstu viku munu æðsti herstjórnandi Bandaríkjanna í Írak og bandaríski sendiherrann gera þinginu grein fyrir stöðinni í Írak.

Forsetinn verður svo ekki síðar en 15. þessa mánaðar að gefa þinginu skýrslu um gang mála og markmið sín. Þetta er í fyrsta skipti sem forsetinn ljær máls á því að huga að heimflutningi hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×