Erlent

Sprengdi hjákonuna í loft upp

Óli Tynes skrifar
Frá Jinan.
Frá Jinan.

Háttsettur kínverskur embættismaður var tekinn af lífi í dag fyrir að myrða hjákonu sína með bílsprengju. Aðeins liði tveir mánuðir á milli morðsins og aftökunnar. Vitorðsmaður hans var einnig tekinn af lífi og annar dæmdur í lífstíðar fangelsi. Málið hefur vakið mikla hneykslan í Kína þar sem spilling embættismanna hefur mjög verið til umræðu undanfarin misseri.

Duan Jíhe var formaður sveitarstjórnarinnar í héraðshöfuðborginni Jinan. Hann kynntist fráskilinni barstúlku að nafni Liu Haiping árið 2000. Duan keypti handa henni hús og útvegaði fjölmörgum ættingjum hennar vinnu.

Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum þreyttist hann á sífelldum kröfum hennar um meiri peninga og að hann skildi við eiginkonu sína og kvæntist sér. Undir lokin hótaði hún að kæra hann fyrir spillingu. Duan fékk þá tvo vini sína til liðs við sig. Þeir komu fyrir sprengju í bíl hjákonunnar og sprengdu hana í loft upp. Duan var handtekinn viku eftir morðið, níunda júlí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×