Erlent

Komið í veg fyrir hryðjuverk

Guðjón Helgason skrifar

Komið var í veg fyrir hryðjuverk þegar danska leyniþjónustan handtók í nótt átta grunaða hryðjuverkamenn í Kaupmannahöfn. Mennirnir eru allir sagðir tengjast al Qaeda.

Lögregla réðst til atlögu gegn mönnunum í nótt þegar vitað var að þeir geymdu það sem leyniþjónustan kallaði ótryggt sprengiefni í íbúðahverfi.

Jakob Scharf, yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar - PET, sagði í blaðamannafundi í dag að aðgerðir hafi farið í gagn klukkan 2 í nótt. Leitað hafi verið á 11 stöðum í Kaupmannahöfn. Allt hafi gegnið að óskum og farið friðsamlega fram. Rannsókn hafi staðið yfir í nokkurn tíma og fylgst með mönnunum um nokkurt skeið. Þeir séu grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk og ætlað að nota sprengjur.

Allir mennirnir eru af erlendu bergi brotnir, meðal annars frá Afganistan, Pakistan, Sómalíu og Tyrklandi. Þeir hafa allir búið í Danmörku í nokkurn tíma. Sex þeirra eru með danskan ríkisborgararétt og tveir með dvalarleyfi. Þeir voru handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga en gæsluvarðhalds verður aðeins krafist yfir tveimur þeirra.

Dönsk yfirvöld segja mennina tengjast alþjóðlegum samtökum herskárra múslima - þar á meðal með bein tengsl við háttsetta liðsmenn al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna. Scharf segir það mat leyniþjónustunnar að tekist hafi að koma í veg fyrir hryðjuverakaárás. Ekki hafi þó talist ástæða til að hækka varnarviðbúnað í Danmörku vegna þessa.

Ekki kom fram á blaðamannafundinum hvort mennirnir hafi ætlað að láta til skarar skríða í Danmörku eða annars staðar. Danska leyniþjónustan telur ekkert benda til þess að sprengjuáformin nú tengist deilunni og skopmyndirnar af Múhameð spámanni eða veru danskra hermanna í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×