Erlent

Slegist um boðskort á minningarathöfn um Díönu

Óli Tynes skrifar

Hatrammur slagur geisar nú um það í Bretlandi að fá boðskort í minningarathöfn um Díönu prinsessu. Þá eru liðin tíu ár frá dauða hennar.  Þannig hringdi fyrrverandi bryti hennar öskureiður í skipuleggjendurna þegar hann fékk ekkert kort. Paul Burrell taldi sig trúnaðarvin hennar. Hann hefur hinsvegar makað krókinn vel á bókum sem hann hefur skrifað um þjónustu sína.

Hann fékk þau svör að nærveru hans væri ekki óskað. Talsmaður Karls bretaprins sagði að þeir hefðu satt að segja verið dálítið undrandi á því að Burrell skyldi búast við að vera boðið.

Þá hefur verið upplýst að ný eiginkona prinsins, Camilla hertogaynja af Cornwall verði ekki viðstödd. Hún segist hrærð yfir því að Karl og synir hans tveir skyldu bjóða sér, en talið rétt að halda sig fjarri. Miklar tröllasögur ganga um það að Elísabet drottning hafi ráðlagt henni að mæta ekki, eða jafnvel bannað henni það. Enginn veit hvort þetta er rétt. En tröllasögur eru ekki óalgengar þegar Díana er annarsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×