Erlent

Bráðnun hafíss opnar leið milli Asíu og Evrópu

Þórir Guðmundsson skrifar

Vísindamenn telja að á næstu árum muni siglingaleiðin milli Evrópu og Asíu styttast um þriðjung, þegar Norðurskautsísinn bráðnar og hægt verður að sigla norður fyrir Kanada að sumarlagi. Frumbyggjar í norðurhéruðum Kanada segjast þegar finna fyrir hlýnun jarðar.

Hafísinn í kringum Norðurheimskautið hefur um aldir komið í veg fyrir siglingar kaupskipa stystu leið frá Asíu til Evrópu. Bæði Rússar og Kanadamenn eru með ísbrjóta meðfram strandlengjum sínum en hingað til hefur ekki verið hægt að sigla almennum kaupskipum þessa leið með góðu móti.

En nú bendir ýmislegt til að ísinn sé að bráðna hraðar en áður var talið. Frumbyggjar hafa tekið eftir þessu.

Elsie Ovilok, íbúi í norður Kanada, segir að áður fyrr hafi hafísinn verið svo þéttur að hægt hafi verið að ferðast á honum fram í júlí. Nú séu ínúítar heppnir ef hann heldur fram í maí.

Kanadamenn vonast til að hægt verði að sigla norðvesturleiðina svokölluðu sem fyrst og nú telja vísindamenn að bráðnun íssins sé svo hröð að það geti gerst miklu fyrr en áður var talið.

Brandon Harvey, sjávarlíffræðingur, segir að norðvesturleiðin kunni að opnast allt að þrjátíu árum áður en hingað til hefur verið talið. Vísindamenn hafa almennt miðað við árið 2050 í því sambandi, þó engin leið sé til að segja fyrir um það með nokkurri vissu.

Bráðnun íssins er rakin til hlýnunar jarðar. Kaupskip sem fara norðurleiðina milli Kína og Evrópu í staðinn fyrir að sigla um Panamaskurðinn stytta leiðina um tvö þúsund sjómílur. Það ætti að þýða minni kostnað - og þá enn lægra verð á fjöldaframleiddum vörum frá Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×