Erlent

Stóðlífsfyrirtæki velta milljörðum

Óli Tynes skrifar
Það er auðvelt að finna "swingers" klúbba á netinu.
Það er auðvelt að finna "swingers" klúbba á netinu.

Makaskipti eru orðin milljarða króna iðnaður í Bandaríkjunum. Ekki er óalgengt að þeir sem stunda makaskipti borgi hundruð þúsunda króna á ári fyrir að fá til þess aðstöðu. Hún fæst meðal annars fyrir milligöngu fyrirtækja sem skipuleggja stóðlífsuppákomur á klúbbum og hótelum víðsvegar um landið. Með því að sækja þessar uppákomur getur fólk verið visst um að hitta nýja bólfélaga í tryggu umhverfi.

Stærsta stóðlífsfyrirtækið í Bandaríkjunum er Lifestyles Organization, sem nýlega hélt árshátíð sína í Las Vegas. Þangað komu um 900 pör. Fréttamaður Reuters fréttastofunnar fylgdist með samkomunni og sagði að þar hefðu eiginlega verið allir uppá öllum.

Fréttamaðurinn talaði meðal annars við hina 48 ára gömlu Terri, sem bað um að eftirnafninu væri sleppt. Hún sagðist hafa verið með þrem karlmönnum síðustu tuttugu og fjórar klukkustundirnar. Með Terri var eiginmaður hennar og jafnaldri, en þau hafa verið gift í 21 ár.

Fyrir árshátíðina í Vegas greiddi fólkið 690 dollara skráningargjald til Lifestyles Organization. Forstjóri fyrirtækisins segir að þar af hafi um 200 dollarar farið í kostnað, og hagnaðurinn því um 400 þúsund dollarar. Gestirnir greiða sjálfir fyrir flug sitt og hótelkostnað. Lifestyle Organization veltir um 15 milljónum dollara árlega.

Fjöldi umsvifaminni fyrirtækja velta einnig milljónum dollara árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×