Erlent

Stólar sem skipta litum

Fuwapica-húsgögnin eru ekkert venjuleg.
Fuwapica-húsgögnin eru ekkert venjuleg.

Japanskir vísindamenn hafa hannað stóla sem skipta litum. Stólar og borð af gerðinni Fuwapica sem skipta litum eins og kamelljón vöktu nokkra athygli á SIGGRAPH sýningunni í San Diego í Bandaríkjunum. Sýningin er haldin árlega í mismunandi borgum en þar er til sýnis ýmislegt sem tengist tölvugrafík.

Það eru Shinya Matsuyama og félagar hennar hjá hönnunarfyrirtækinu Studio Mongoose í Japan sem eru hugmyndasmiðirnir á bakvið húsgögnin litríku. Hugsunin á bakvið hönnunina var sú að húsgögn eigi ekki að vera hlutlaus heldur eigi að vera hægt að eiga í nokkurs konar samskiptum við þau.

Stólarnir skipta litum eftir því hvaða hlutur stendur á borðinu. Apple-tölva er ofan í borðplötunni og sendir þráðlaus boð til stólanna fjögurra sem mynda þá litað ljós í sem líkustum lit og sá hlutur sem er á borðinu.

Þá eru einnig nemar í stólunum sjálfum sem meta þyngd en þeir þyngri fá dekkri litbrigði. Reynt er að hafa ákveðinn slátt á ljósinu á svipuðum hraða og andardráttur manna. Er þetta gert til að láta stólana líkjast lifandi veru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×