Erlent

Nýnasistar háværir í Danmörku

Guðjón Helgason skrifar

Nýnasistar létu í sér heyra í Kolding í Danmörku í gær þar sem þeir minntust þess að tuttugu ár eru liðin frá nasistaforingjanum Rudolf Hess. Hundrað manns voru handteknir - fæstir af þeim þó nýnasistar. Leiðtogi þeirra var þó færður í járn fyrir að ráðast á laganna verði.

Hess var næstráðandi á eftir Adolf Hitler í Nasistaflokknum - þriðji í röð þeirra sem stýrðu Þriðja ríkinu. Hann var handtekinn í Skotlandi 1941. Talið er að hann hafði flogið þangað til að reyna að semja um frið við Breta. Hann var fangelsaður í Lundúnaturninum og síðar dæmdur í lífstíðarfangelsi í réttarhöldunum í Nürnberg eftir Seinni heimsstyrjöldina. Hann afplánaði í Spandau-fangelsinu í Berlín en þar lést hann sautjánda ágúst 1987.

Nýnasistar víða um heim hafa sýnt honum mikla virðingu hin síðari ár og hafa göngur honum til heiðurs verið farnar víða - meðal annars í Þýskalandi.

Sá sem fór fyrir nýnasistum í Kolding í Danmörku í gær var Jonni Hansen, leiðtogi þeirra.

Andstæðingar nýnasista mættu þeim og til átaka kom. Þegar lögregla reyndi að skakka leikinn beindu nýnasistar reiði sinni að lögreglumönnum og voru nokkrir þeirra handteknir fyrir að ráðast á lögreglu. Þar á meðal var Hansen sem var í dag úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald en honum er gefið að sök að hafa barið einn lögreglumann ítrekað í höfuðið.

Allt í allt voru hundrað manns handteknir í átökunum í gær - nýnasistar sem og andstæðingar þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×