Erlent

Stjórnlausir skógareldar í úthverfum Aþenu

Óli Tynes skrifar
Tugir húsa hafa orðið eldunum að bráð.
Tugir húsa hafa orðið eldunum að bráð. MYND/AP
Gríðarlegir skógareldar hafa borist í úthverfi Aþenu, höfuðborgar Grikklands. Þrjátíu metra háar eldsúlur hafa þegar brennt tugi húsa til kaldra kola. Sjóðheitir stormsveitir koma í veg fyrir að hægt sé að nota flugvélar við slökkvistarfið. Slökkviliðsmenn á jörðu niðri ráða ekkert við ástandið. Gríska veðurstofan segir að vindinn muni ekki lægja fyrr en seint í kvöld.

Eldarnir kviknuðu um klukkan hálf ellefu í morgun á Pentele fjalli sem er um 20 kílómetra norður af Aþenu. Þeir bárust leifturskjótt niður fjallið og í átt til höfuðborgarinnar. Þykkir svartir reykjabólstrar liggja yfir höfuðborginni.

Fólk í úthverfum Aþenu flýr nú heimili sín. Það segir að eldarnir brenni stjórnlaust. Það sé ekkert vatn, ekkert rafmagn og enga hjálp að hafa nokkursstaðar. Miklir skógareldar hafa komið upp í Grikklandi í sumar, eins og raunar mörgum öðrum löndum Suður-Evrópu. Því valda einkum miklir hitar og þurrkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×