Erlent

Óttast að 330 hafi týnt lífi

Guðjón Helgason skrifar

Óttast að rúmlega 300 manns hafi týnt lífi í tveimur öflugum jarðskjálftum sem skóku Perú í nótt. Björgunarmenn reyna nú hvað þeir geta til að leita eftirlifenda í rústum húsa.

Almannavarnir í Perú segja að minnst 330 manns hafi týnt lífi í skjálftunum sem mældust 7,9 og 7,5 á Richter og áttu upptök sín um 145 kílómetrum suður-austur af höfuðborginni Líma við Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku. Tveir eftirskjálftar upp á 5,9 og 5,4 á Richter riðu síðan yfir.

Þetta gerðist um kvöldmatarleytið að staðartíma, skömmu fyrir miðnætti að íslenskum tíma. Hús hristust og rafmagn fór af stóru svæði. Fólk þaut í ofboði út á myrkvaðar göturnar. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir Perú, Chile og Kólumbíu en hún var dregin til baka skömmu síðar.

Ástandið er verst í strandhéraðinu Ica um hundrað og sextíu kílómetrum suður af Líma. Þar búa 650 þúsund manns. Flestir hinna látnu voru þar þegar skjálftarnir skullu á svæðinu og óttast að margir liggi lifandi eða látnir í rústunum þar.

Alan Garcia, forseti Perú, hefur lýst yfir neyðarástandi í Ica. Þess fyrir utan hefur hann sent allt tiltækt lögreglulið út á götur í borgum og bæjum landsins til að tryggja öryggi borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×