Erlent

Ótti við heilahimnubólgusmit í flugi til Danmerkur

MYND/AFP

Grunur vaknaði um að fjórtán ára dönsk stúlka sem var á leið frá Bangkok á Kastrupflugvöll í Danmörku í morgun væri með heilahimnubólgu. Farþegar um borð í SAS-vélinni fengu ekki að yfirgefa hana við komuna til Kastrup fyrr en læknar voru búnir að rannsaka stúlkuna.

Læknir sem var um borð í vélinni tók eftir einkennum hjá stúlkunni sem bentu til þess að hún væri með smitandi heilahimnubólgu. Hann lét flugáhöfnina vita og við komuna á Kastrup var starfsmaður sendur inn með síma til þess að læknirinn um borð gæti ráðfært sig við annan lækni.

Eftir 45 mínútur fengu farþegarnir að yfirgefa flugvélina og stúlkan var flutt á nærliggjandi sjúkrahús til aðhlynningar. Þeir farþegar sem sátu nálægt henni í vélinni hafa verið beðnir um að fylgjast með mögulegum einkennum og láta vita ef þeirra verður vart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×