Erlent

Snemmbúnum kosningum spáð í Bretlandi

Guðjón Helgason skrifar

Sterkar líkur eru taldar á því boðað verði til snemmbúinna þingkosninga í Bretlandi. Verkamannaflokkurinn, undir forystu Gordons Browns, mælist nú með 10% meira fylgi en Íhaldsflokkurinn.

Síðast var kosið í Bretlandi í maí 2005 og þá vann Verkamannaflokkurinn sigur undir forystu Tonys Blairs. Nú er Gordon Brown tekinn við leiðtogaembættinu í flokknum og orðinn forsætisráðherra og margir stjórnmálaskýrendur talið það sterkan leik hjá honum að boða til kosninga hið fyrsta.

Stjórnarflokkurinn í Bretlandi hverju sinni ræður því hvenær boðað er til kosninga. Er það yfirleitt gert í fyrsta lagi þegar 3 ár eru liðin af kjörtímabili en í síðasta lagi þegar 5 ár eru liðin.

Rætt hefur verið hvort Brown vilji boða til kosninga nú í haust og fengu þær sögur byr undir báða vængi á fimmtudaginn þegar flokkurinn skipaði fyrrverandi trúnaðarvin Tonys Blairs í nýtt embætti og honum falið að herða á fjáröflun og undirbúa Verkamannaflokkinn fyrir kosningar.

Ný könnun breska blaðsins Sunday Times hefur enn aukið á þessar vangveltur því nú mælist 10% munur á Verkamannaflokknum og Íhaldsmönnum og hefur hann ekki verið meiri síðan fyrir Íraksstríðið sem hljóta að teljast slæmar fréttir fyrir David Cameron, leiðtoga Íhaldsmanna.

Þó er bent á að stutt sé frá því að Brown tók við í Downing stræti tíu og því ekki við öðru að búast en að hann sé enn að mælast með gott fylgi.

Ekki eru allir Bretar fylgjandi snemmbúnum kosningum og vilja 40% þeirra að Brown bíði þar til í fyrsta lagi næsta vor og 16% að hann bíði lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×