Erlent

Nýtt eldflaugavarnarkerfi í Rússlandi

Guðjón Helgason skrifar

Rússar ætla að byggja nýtt eldflaugavarnarkerfi sem svar við því bandaríska sem koma á fyrir í ríkjum Austur-Evrópu. Rússlandsforseti segir kerfið tilbúið eftir átta ár.

Ný ratsjárstöðin er í Lekhtusi nærri Sánkti Pétursborg tengist þessum áformum. Hún var tekin í gagnið í desember. Itar Tass fréttastofan rússneska hefur eftir Sergei Ivanov, vara forsætisráðherra, að hún hafi verið eitt og hálft ár í smíðum sem sé óvenju skammur tími. Áður hafi tekið fimm til níu ár að smíða slíkar stöðvar. Hægt er að hafa eftirlit með stóru svæði frá Norðurpólnum til Suður-Afríku í þessari nýju stöð.

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, heimsótti ratsjárstöðina í gær. Við það tækifæri sagði hann stöðina fyrsta áfanga í umfangsmikilli endurnýjun á eldflaugavarnarkerfi Rússa. Pútín vildi ekki greina nánar frá öðrum framkvæmdum en sagði að stefnt að því að kerfið verði tilbúið árið 2015. Önnur ratsjárstöð er í byggingu í Armavir í Suður-Rússlandi.

Talið er að áform rússneskra stjórnvalda séu svar við áætlunum Bandaríkjamanna um að koma fyrir eldflaugavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi. Rússar eru andvígir þeim áformum þar sem slík stöð myndi draga úr jafnvægi í Evrópu auk þess sem hægt yrði að nota kerfið gegn Rússum. Rússar hafa jafnvel hótað að beina eldflaugum sínum aftur á borgir í Evrópu verði þessum áformum haldið til streitu.

Bandaríkjamenn hafa sagt áhyggur Rússa óþarfar. Kerfinu verði beint gegn ríkjum á borð við Íran og Norður-Kóreu. Bandarísk stjórnvöld hafa tekið fálega í tilboð Rússa um að samnýta ratsjárstöð í Aserbaídsjan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×