Erlent

Norska prinsessan tjáir sig um englana

Óli Tynes skrifar
Marta Lovísa, prinsessa.
Marta Lovísa, prinsessa.

Marta Lovísa Noregsprinsessa hefur loks tjáð sig um englana sína. Það vakti mikla athygli um allan heim þegar hún lýsti því yfir að hún gæti bæði talað við engla og dýr. Nokkru síðar tilkynnti hún að hún væri farin í tveggja vikna veikindafrí. Það var rakið til álags á henni eftir hina gríðarlegu fjölmiðlaumfjöllun um englana.

Í viðtali við norska ríkissjónvarpið sem sent verður út í kvöld er hún auðvitað spurð um englana. Og hvernig þeir líta út. Prinsessan sagði að þeir væru ekki líkamlegir í venjulegum skilningi. Þeir væru bara kærleikur. Sendiboðar Guðs til mannanna. Marta Lovísa lagði áherslu á að það væri jafn misjafnt og mennirnir væru margir hvernig þeir skynjuðu engla. Það væri engin ein föst ímynd. Sumir þekktu þá, sumir sæju þá og sumir heyrðu í þeim.

Prinsessan staðfesti að englar geti haft vængi, eins og á jólakortunum. Það færi allt eftir því hvernig menn sæju þá. Hún sagði að fyrir sér persónulega væru englarnir eins og ljósverur. Hún skynji þá sem mikla nærveru og kærleiksstuðning. Þannig horfi þeir við henni, og aðrir megi hafa þær skoðanir sem þeir vilja á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×