Erlent

Mikilvægar kosningar í Síerra Leóne

Guðjón Helgason skrifar

Íbúar í Afríkuríkinu Sierra Leóne kjósa sér þing og forseta í dag. 7 ár eru síðan blóðugri borgarastyrjöld lauk í landinu og óttast margir að aftur geti soðið upp úr. Því er talið mikilvægt að kosningarnar í dag fari vel fram og sátt náist um úrslit þeirra.

2,6 milljónir Sierra Leóne-manna eru á kjörskrá. Yfirvöld í landinu sjá nú um kosningarnar en 2002 önnuðust fulltrúar Sameinuðu þjóðanna framkvæmd þeirra. 2 árum áður höfðu Bretar sent hersveitir til landsins til að binda enda á 10 ára borgarstyrjöld sem hafði kostað fjölmörg mannslíf.

Stjórnmálaskýrendur segja endurreisn landsins hafa gengið hægt þrátt fyrir að hjálpargögn og peningar hafi streymt til landsins - atvinnulausum hafi fjölgað og spilling aukist sem talið er að geti valdið átökum líkt og fyrir 17 árum. Því mun mikilvægt að kosningarnar nú gangi vel fyrir sig svo almennir borgarar í Sierra Leóne og umheimurinn sjái að stöðugleiki ríki í landinu. Kosningabaráttan hefur farið friðsamlega fram en henni lauk í fyrradag. Ekki búist við átökum í dag en óttast er að veðurguðirnir valdi vandræðum í dag þar sem mikið hefur rignt og fyrir vikið gengið erfiðlega að koma kjörgögnum á alla kjörstaði.

7 menn berjast um forsetaembættið en Ahmed Tejan Kabbah víkur úr embætti eftir tvö kjörtímabil. 3 eru sagðir sigurstranglegastir, þar á meðal varaformaður stjóranrflokksins, Þjóðarflokks Sierra Leóne, og frambjóðandi stjórnmálaflokksins sem réð ríkjum í tvo áratugi áður en borgarastyrjöldin skall á. 500 frambjóðendur sækjast eftir 100 þingsætum. Óvíst er að úrslit ráðist í dag í öllum kjördæmum þar sem kjósa þarf aftur þar sem frambjóðandi nær ekki 55% atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×