Erlent

Íraksstríðið illa skipulagt

Guðjón Helgason skrifar

Forsætisráðherra Danmerkur segir Íraksstríðið hafa verið illa skipulagt og ástandið í landinu nú langt frá því að vera viðunandi. Hann er þó enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að fara með hervaldi gegn Saddam Hússein.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, er ómyrkur í máli í viðtali við danska blaðið Politiken í dag. Hann viðurkennir að Íraksstríðið hafi verið illa skipulagt og segir ástandið þar í landi nú langt frá því viðunandi. Fogh-Rasmussen segist þó enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að fara með hervaldi á hendur Saddam Hússein, fyrrverandi Íraksforseta, þrátt fyrir að illa hafi gegnið. Hann segir þróunina hafa verið aðra en búist hafi verið við og viðurkennir forsætisráðherranna að styrkur öfgamanna í Írak hafi verið vanmentinn.

Í febrúar síðastliðnum tilkynnti Fogh Rasmussen að allir danskir hermenn yrðu komnir heim í ágúst. Þegar mest var var rúmlega 400 manna dansk herlið í Írak undir stjórn Breta norður af Basra. Sjö danskir hermenn hafa fallið í Írak og nokkrir særst misalvarlega.

Orð danska forsætisráðherrans nú eru afgerandi hvað varðar undirbúning og framkvæmd hernaðaraðgerða Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.

Íslensk stjórnvöld, sem studdu innrásina, hafa ekki gengið jafn langt. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var þó stríðsreksturinn í Írak harmaður en það ekki skýrt nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×