Erlent

Ókyrrð á mörkuðum um allan heim

Guðjón Helgason skrifar

Úrvalsvísitalan lækkaði um 3% þegar opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni í morgun. Krónan hefur veikst um rúm 2%. Þetta er í takt við lækkanir á alþjóðlegum mörkuðum en mikil ókyrrð ríkir um allan heim vegna vandræða á bandarískum húsnæðislánamarkaði.

Dagurinn byrjaði illa á fjármálamörkuðum í Asíu og Evrópu í morgun en niðursveifla var einnig á mörkuðum í gær vegna slæmrar stöðu þeirra fjármálastofnana sem lánað hafa fólki með slakt lánstraust fé til húsnæðiskaupa. Fjármálafyrirtæki hafa þurft að taka á sig mikið tap vegna þessa og hafa vanskil á lánum aukist verulega vegna hækkandi vaxta. Sérfræðingar segja að á þessari stundu sé ómögulegt að geta sér til um umfang vandans og áhrif hans um allan heim.

Við lokun markaða í Bandaríkjunum í gær hafði Dow Jones-vísitalan læknnað um tæp 3% og Nasdaq hlutabréfavísitana farið niður um 2,2%. Í Japan féll Nikkei-vísitalan um 2,5% í morgun og þá féll verð á hlutabréfum á mörkuðum í Hong Kong og Singapore um 2-4%. Hlutabréf á mörkuðum í Evrópu lækkuðu í verði þegar opnað var fyrir viðskipti í morgun. Norska blaðið Aftenposten talar um blóðrauðan dag á norskum markaði en þar lækkaði gengi hlutabréfa um 2,1% á fyrsta hálftíma sem viðskipti voru heimil í morgun. Seðlabankar Japans, Ástralíu, Evrópu og Bandaríkjanna hafa reynt að bregðast við þessu og dælt fé inn á markaðinn í þeirri von að ná jafnvægi og koma í veg fyrir frekari fall á mörkuðum.

Úrvarlsvísitalan íslenska lækkaði um 3% þegar Kauphöllin var opnuð í morgun og krónan veikst um rúm 2%. Gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum á Íslandi hefur lækkað mikið í morgun en gengi þeirra hefur verið á mikilli hreyfingu. Gengi bréfa í Exista fór niður um 6,4% stuttu eftir opnun viðskipta en gengi bréf í öðrum fjármálafyrirtækjum um 2% og meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×