Erlent

Vill banna Kóraninn í Hollandi

Óli Tynes skrifar
Skopteiknarar fjalla gjarnan um baráttu Wilders gegn múslimum.
Skopteiknarar fjalla gjarnan um baráttu Wilders gegn múslimum.

Hollenski þingmaðurinn Geert Wilders vill láta banna Kóraninn í Hollandi. Hann kallar Kóraninn fasistarit og líkir honum við bók Hitlers, Mein Kampf. Í grein í hollensku dagblaði í dag segir Wilders; Bönnum þessa ömurlegu bók eins og Mein Kampf er bönnuð. Sendum múslimum þau skilaboð að Kóraninn verður ekki notaður til að æsa til ofbeldis í þessu landi."

Meginstefna flokks Wilders er andstaða við innflytjendur. Flokkurinn vann níu af 150 sætum á hollenska þinginu í nóvember síðastliðnum. Wilders er sérlega í nöp við múslima og hefur varað við því að holskefla þeirra muni bera hollensku þjóðina ofurliði.

Um ein milljón múslima býr nú í Hollandi, sem er þekkt fyrir umburðarlyndi á flestum sviðum. Innflytjendamál og aðlögun eru ekki ofarlega í hinni pólitísku umræðu þrátt fyrir tilraunir Wilders í þá átt.

Wilders hefur verið undir lögregluvernd síðan herskáir múslimar hótuðu að myrða hann árið 2004. Talin er full ástæða til að taka þær hótanir alvarlega, eftir að kvikmyndagerðarmaðurinn Theo Van Gogh var myrtur árið 2004.

Ayhan Tonca, formaður regnhlífarsamtaka múslima í Hollandi gefur hinsvegar lítið fyrir nýjustu skrif Wilders. Hann segir að þetta sé bara dæmigerður Wilders og best fyrir alla að leiða skrifin hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×