Erlent

Hústökumönnum hent út

Guðjón Helgason skrifar

Ísraelskir lögreglumenn þurftu að beita landa sína hörðu þegar þeir hentu þeim út úr húsi á Vesturbakkanum í dag. Hústökumenn höfðu hreiðrað þar um sig þrátt fyrir úrskurð hæstaréttar Ísraels um að það mættu þeir ekki. Glæpur segja hústökumenn.

Um 500 landtökumenn úr hópi gyðinga búa á vel vörðum innskotssvæðum í Hebron á Vesturbakkanum og umhverfis þá eru 160 þúsund Palestínumenn. Ísraelar ráða miðri borginni þar sem helgan stað gyðinga og múslima er að finna.

Ísraelsku hústökumenn vildu ekki fara með góðu úr hús í borginni í dag. Þá varð að beita harkalegum aðferðum til að fá þá á brott. Þegar hústökumenn höfðu verið fluttir út kom til átaka milli þeirra og lögreglu. Enginn var handtekinn í atganginum og aðeins tveir slösuðust lítillega.

Tvær gyðingafjölskyldur höfðu lagt undir sig nokkrar íbúðir í húsinu og dvalið þar í marga mánuði. Þegar ljóst var að flytja átti fólkið á brott komu aðrir hústökumenn þeim til stuðnings.

Lokaður markaður er þar sem húsið sem nú er deilt um stendur. Honum var lokað fyrir 13 árum þegar herskár gyðingur myrti nærri 30 Palestínumenn við nálægan helgistað. Síðan þá hafa landtökumenn reynt að leggja þennan borgarhluta aftur undir sig og hundsað úrskurð hæstaréttar Ísraels sem bannar það.

Land- og hústökumenn segja húsið hafa verið í eigu gyðingafjölskyldu í marga áratugi eða þar til jórdönsk yfirvöld hafi lagt það undir sig 1948. Talsmaður hústökumanna segir það glæp að gera þeim að fara úr húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×