Erlent

Hvað eiga Tinni og John Wayne sameiginlegt

Óli Tynes skrifar

Kongóskur námsmaður í Belgíu hefur höfðað mál til þess að fá bókina Tinni í Kongó skilgreinda sem kynþáttafordóma. Hann vill láta fjarlægja hana úr bókabúðum. Hann vill einnig fá eina evru sem táknrænar skaðabætur frá fyrirtækinu sem á útgáfurétt að Tinna bókunum. Jafnréttisráð Bretlands hvatti fyrr á þessu ári bókabúðir til þess að fjarlægja fyrrnefnda Tinna bók úr hillum sínum. Sala á bókinni fór þá upp eins og raketta.

Landið sem nú heitir Lýðveldið Kongó var belgisk nýlenda til ársins 1960. Talsmaður útgáfurétthafa segist undrandi á málshöfðuninni, sem þeir hafi raunar aðeins heyrt um í fjölmiðlum. Hann segir að bókin hafi komið út árið 1931 og það verði að líta á hana í sögulegu samhengi.

Talsmaðurinn benti á að kvikmyndir með John Wayne séu ennþá sýndar, þótt hann sjáist þar skjóta Indíána og annan. Ekki eru allir sáttir við þann samanburð. Stuðningsmenn Johns Wayne segja að hann hafi skotið á allt sem hreyfðist. Því sé ekki hægt að saka hann um að mismuna Indíánum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×