Erlent

Átta milljón ára gamall skógur í Ungverjalandi

Óli Tynes skrifar
Trén eru ótrúlega vel varðveitt.
Trén eru ótrúlega vel varðveitt.

Átta milljón ára gamall sýprusskógur hefur fundist í norðausturhluta Ungverjalands. Hann þykir merkilegur fyrir þær sakir að hann er ekki steinrunninn. Einhverntíma í fyrndinni hefur komið þarna mikill sandstormur sem lagði sex metra þykkt teppi af sandi yfir skóginn.

Tímans tönn hefur unnið á öllu sem náði upp úr sandinum. En trén sem voru niðurgrafin eru ótrúlega vel varðveitt. Þau standa eins og þau uxu þarna fyrir átta milljónum ára. Skógurinn fannst þegar verið var að taka sandnámu.

Trén eru tvo til þrjá metra um sig og hafa verið 30 til 40 metra há. Vísindamenn segja að með því að telja árhringina sé ekki aðeins hægt að sjá hvað trén voru gömul, heldur einnig loftslagsbreytingarnar sem urðu á vaxtartíma þeirra.

Talið er að þau hafi verið 300 til 400 ára gömul þegar sandurinn kæfði þau. Þar sem þau uxu ekki öll samtímis geta vísindamenn skoðað þarna 1000 til 1500 ára tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×