Erlent

190 þúsund byssur týndar

Guðjón Helgason skrifar

Bandarísk hermálayfirvöld hafa týnt 190 þúsund skotvopnum sem sett voru í hendur íraskra lögreglu- og hermanna. Byssurnar átti að nota til að tryggja öryggi íraskra borgara en nú er óttast að þær séu notaðar til að myrða þá og bandaríska hermenn.

Um er að ræða 110 þúsund AK-47 árásarriffla og 80 þúsund skammbyssur. Þá hafa einnig 135 þúsund skothelt vesti horfið og 115 þúsund hjálmar. Allur þessi búnaður kemur frá Bandaríkjamönnum og var settur í hendur íraskra öryggissveitar- og lögreglumanna.

Það er rannsóknarhópur á vegum Bandaríkjaþings sem greinir frá þessu í nýrri skýrslu en þar segir að bandarísk hermálayfirvöld geti ekki greint frá því hvað orðið hafi um byssurnar. Þau geta aðeins rakið um 30% þeirra vopna sem hafa verið send Írökum síðustu 3 árin. Varnarmálaráðuneytið dregur þessar tölur ekki í efa og segir málið í athugun.

Í skýrsllunni segir að vopnum hafi verið útbýtt af handahópi og í flýti og skipulag hafi verið lítið sem ekkert, sér í lagi árin 2004 og 2005. Þá sá David Petraeus, herforingi í Bandaríkjaher, um þjálfun íraskra öryggissveita, en Petraeus stjórnar nú öllum herafla Bandaríkjamanna í Írak. Nú er óttast að vopin séu notuð til að myrða íraska borgara og bandaríska hermenn.

Ofan á þessa mun einnig ganga treglega að koma vopnum sem Írakar hafa óskað frá Bandaríkjamönnum í hendur öryggissveita. Rúmlega fjórðungur þess sem pantað hefur verið hafi borist og segir sendiherra Íraka í Bandaríkjunum að það komi í veg fyrir að Írakar sjálfir geti tekið á andspyrnumönnum.

Þessar upplýsingar koma fram á versta tíma fyrir Bush Bandaríkjaforseta þar í Washington er nú tekist hart á um árangurinn í Íraksstríðsins. Petraeus og Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjamanna í Írak, munu í næsta mánuði leggja fram skýrslu þar sem þeir meta árangur hertra aðgerða í Írak sem miða að því að binda enda á átök þjóðarbrota og auka möguleikann á fullri sjálfsstjórn Íraka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×