Erlent

Neyðarástand vegna elda í Dubrovnik

Guðjón Helgason skrifar

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í króatísku hafnarborginni Dubrovnik þar sem miklir skógareldar loga nú. Gríðarlegir skógareldar hafa logað í Suður-Evrópu það sem af er sumri og ekki hafa þeir verið verri í þeim hluta álfunnar fyrr.

Björgunarsveitarmenn bíða nú skipana frá borgarstjóranum í Dumbrovnik um að byrja að flytja íbúa á brott frá heimilum sínum í hlíðum umhverfis borgina. Um fimm hundruð slökkviliðsmenn reyna nú hvað þeir geta til að ná tökum á eldunum og flugvélar meðal annars notaðar til að berjast við þá. Vindasamt er á svæðinu og gerir það slökkviliðsmönnum erfitt fyrir og því breiðast eldarnir hratt út. Virkar jarðsprengjur frá stríðsátökum á tíunda áratug síðustu aldar hafa einnig hamlað slökkvistarfi og komið í veg fyrir að slökkviliðsmenn komist á sum svæði þar sem eldarnir loga.

Dúbrovnik, sem oft er nefnd Perla Adríahafsins, er á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og vinsæll ferðamannastaður. Þar standa enn fjölmargar merkar byggingar frá miðöldum þrátt fyrir að borgin hafi skemmst mikið í átökunum á Balkanskaga. Stór hluti hennar hefur verið endurbyggður. Óttast er að einhverjar merkar byggingar geti orðið eldunum að bráð nái slökkviliðsmenn ekki tökum á þeim hið fyrsta.

Dubravka Suica, borgarstjóri, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að ferðamenn væru ekki í hættu þar sem eldarnir ógni ekki hverfum við ströndina þar sem flest hótel borgarinnar séu.

Mikilir skógareldar, einhverjir þeir verstu í sögunni, hafa logað í Suður-Evrópu í sumar þar sem hvert hitametið hefur verið slegið á fætur öðru. Eldar hafa logað í Albaníu, Búlgaríu, á Grikklandi, Ítalíu, í Makedóníu, Portúgal, á Spáni og í Tyrklandi. Rúmlega þrjú þúsund ferkílómetrar af skóglendi hafa orðið eldum að bráð - meira en allt árið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×