Erlent

Það ætti að kalla þetta nauðgunarströndina

Óli Tynes skrifar
Sunny Beach í Búlgaríu.
Sunny Beach í Búlgaríu.

Enn einni sænskri stúlku hefur verið nauðgað á Sunny Beach í Búlgaríu. Barsmíðar, rán, nauðganir og jafnvel morð eru nánast daglegt brauð á þessari strönd, sem er mikið sótt af ungum Norrænum ferðamönnum. Illvirkjarnir nást aldrei. Norsk ferðaskrifstofa leyfir þeim sem vilja að breyta um áfangastað sér að kostnaðarlausu.

Sænska stúlkan, sem er tvítug, var að taka leigubíl heim frá diskóteki seint um nótt. Bílstjórinn ók inn í hliðargötu og réðist á hana í aftursætinu. Hann barði hana hrottalega, nauðgaði henni og henti henni svo út úr bílnum og ók á brott.

Hún er ekki ein um þessa meðferð. Á sunny Beach var til dæmis fjórum dönskum stúlkum nauðgað á tíu daga tímabili. Norðmaður var myrtur og fjölmörgum Norðurlandabúum hefur verið misþyrmt og þeir rændir. Þegar 17 ára gamall Svíi vildi ekki kaupa kynlíf af vændiskonu komu dólgar hennar til sögunnar og misþyrmdu honum svo illa að hann var rúmliggjandi í marga daga.

Búlgarska lögreglan virðist ekki taka þetta nærri sér. Fórnarlömb nauðgana hafa orðið fyrir því að lögreglumenn sem voru að taka af þeim skýrslu skríktu og flissuðu meðan þeir fengu lýsingar á því sem gerðist. "Það ætti að kalla þetta nauðgunarströndina en ekki sólarströndina," segir norsk stúlka sem var nauðgað á Sunny Beach.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×