Erlent

Mannræningjarnir höfðu leitað að fórnarlömbum um nokkurt skeið

Mynd sem tekin var af hluta hópsins áður en hann lagði af stað til Afganistan
Mynd sem tekin var af hluta hópsins áður en hann lagði af stað til Afganistan MYND/AP

Talibanahópurinn, sem hefur tuttugu og einn suður-kóreskan gísl á valdi sínu, hafði verið að leita að fórnarlömbum um nokkurt skeið, eða frá því að æðsti maður hópsins, Daro Kahn, var handtekinn af bandarískum hermönnum í Qarabagh-héraðinu í júní. Þetta kemur fram í viðtali við einn af æðstu mönnum hópsins sem tímaritið Newsweek birtir í dag.

Njósnarar á vegum talibanahópsins höfðu um nokkurt skeið leitað að fórnarlömbum á þjóðveginum á milli Kabul og Kandahar þegar þeir sáu hvíta rútu fulla af farþegum þann 19. júlí síðastliðinn. Í rútunni voru suður-kóresku hjálparstarfsmennirnir sem ferðuðust um án vopnaðra varða.

Hugmyndin með mannráninu var að reyna skipta á Suður-Kóreubúunum og 115 Talibönum sem hafa verið fangelsaðir, talan var síðan lækkuð í jöfn skipti og nú er farið fram á að átta talibönum verði sleppt, að því er fram kemur í Newsweek.

Talibanarnir hafa þegar drepið tvo af gíslunum. Sá frestur sem afgönsk stjórnvöld fengu til að sleppa talibönunum lausum í dag rann út án þess að frekari fréttir af manndrápi bærust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×