Erlent

Liðsmaður Rauðu Khmeranna ákærður

Kang Kek Ieu
Kang Kek Ieu MYND/AFP

Fyrrum yfirmaður í fangelsi Rauðu Khmeranna hefur verið ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu af dómstól í Kambódíu sem Sameinuðu þjóðirnar standa að. Kang Kek Ieu, einnig þekktur sem Duch, stjórnaði hinu illræmda fangelsi S21 í Phnom Penh höfuðborg Kambódíu.

Talið er að meira en milljón manns hafi látið lífið á þeim fjórum árum sem Khmerarnir stjórnuðu á tímabilinu 1975-1979.

Dómarar við dómstólinn eyddu nokkrum klukkustundum í yfirheyrslur yfir Duch áður en þeir lögðu fram formlegar ákærur. Mörg ár hefur tekið að koma dómstólnum á fót en með ákærunni á hendur Duch eru dómarar að senda skýr skilaboð um að hann sé orðinn virkur, að því er BBC fréttastofan greinir frá.

Eftirlifendur hafa fagnað ákærunni en hafa einnig lýst efasemdum um það að fleiri leiðtogar Rauðu Khmeranna verði dregnir fyrir dóm. Duch var ekki einn af aðalleiðtogum Khmeranna en einn sá illræmdasti að sögn BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×