Erlent

Vopnum smyglað á Gaza-svæðið í gegnum göng

Liðsforingi úr egypska hernum myndar göng sem fundust fyrir sjö mánuðum og sýnd voru fréttamönnum í gær.
Liðsforingi úr egypska hernum myndar göng sem fundust fyrir sjö mánuðum og sýnd voru fréttamönnum í gær. MYND/AP

Egypski herinn fann um helgina nokkur hundruð metra löng göng í bænum Rafah í Egyptalandi sem talið er að hafi verið notuð til að smygla vopnum inn á Gaza-ströndina. Inngangurinn að göngunum var falinn inni í svefnherbergisskáp.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík göng finnast í landamærabænum en svipuð göng höfðu áður fundist í nærliggjandi húsum. Göngin eru þröng og einungis einn maður getur skriðið í gegn.

Egyptar hafa verið undir miklum þrýstingi frá bandarískum og ísraelskum stjórnvöldum um að stoppa vopnasendingar inn á Gaza-ströndina frá því að Hamas-liðar tóku völd á svæðinu í síðasta mánuði. Lögð er rík áhersla á að loka svæðinu svo að hægt verði að einangra Hamas-liða til að koma í veg fyrir að þeir fái vopn og peninga.

Stjórnvöld í Egyptalandi segjast hins vegar þurfa á stuðningi að halda frá Bandaríkjunum og Ísrael. Þau þurfa tæki til að leita göngin uppi og fé til að þjálfa fleiri landamæraverði.

"Við getum ekki stöðvað allt smygl. Við þurfum á fleiri tækjum að halda og við þurfum að tvöfalda fjölda landamæravarða," sagði Amr Madou, hershöfðingi í egypska hernum, í samtali við fréttamenn í gær. "Það eru göng hvar sem stigið er niður fæti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×