Erlent

Suðaustur-Asíuríki setja á fót mannréttindastofnun

Utanríkisráðherrar Suðaustur-Asíuríkja fögnuðu sögulegum áfanga í dag þegar þeir náðu samkomulagi um að setja á fót mannréttindastofnun fyrir svæðið. Gagnrýnendur segja þó að þeir hafi ekki verið nógu harðorðir í garð herstjórnarinnar í Myanmar, áður Búrma.

Samtökin telja tíu lönd á svæðinu og þau hafa verið gagnrýnd af vesturlöndum fyrir að taka ekki á málum í Myanmar. Engu að síður var ákveðið að fresta því að ákvarða umsvif mannréttindastofnunarinnar og að semja stofnsáttmála hennar.

Utanríkisráðherra Filippseyja, Alberto Romulo, fagnaði þó stofnuninni og sagði tilurð hennar sigur fyrir mannréttindi og baráttumenn þeirra. Hann sagði jafnframt að ekkert ríki í tíu þjóða hópnum, þar á meðal Kambódía, Laos, Myanmar og Víetnam, fengi að segja sig úr mannréttindastofnuninni.

Romulo býst við því að stofnsáttmáli hennar verði skrifaður eftir að tíu þjóða hópurinn, eða ASEAN-samtökin svokölluðu, samþykkir stjórnarskrá sína í nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×