Erlent

Sett á geðsjúkrahús gegn vilja sínum

Einn af meðlimum stjórnarandstöðusamtakanna í Rússlandi, sem leidd eru af Garry Kasparpov, heimsmeistara í skák, var í dag settur á geðsjúkrahús gegn vilja sínum.

Samtökin fullyrða að Larisa Arap hafi verið lögð inn í hefndarskyni fyrir grein sem hún skrifaði sem gagnrýndi geðsjúkrahús í Rússlandi fyrir að beita vistmenn ofbeldi. Þau segja lögreglu hafa sótt Arap til læknis síns og farið með hana á geðsjúkrahúsið og þar gefið henni lyf gegn vilja sínum. Arap var hjá lækninum til þess að fá staðfestingu á því að geðheilsa hennar væri í lagi, til þess að geta endurnýjað ökuskírteini sitt, þegar læknir hennar hringdi á lögreglu og lét fjarlægja hana.

Fréttastofa Reuters náði ekki sambandi við lögreglu vegna málsins. Geðsjúkrahúsið gat þó staðfest að þar væri kona með sama nafni og Arap en vísaði á yfirlækninn varðandi veikindi hennar. Hann var í fríi í dag.

Samtök Garry Kasparov eru harðir gagnrýnendur ríkisstjórnar Vladimirs Putin og saka hann um að grafa undan lýðræði og mannréttindum í landinu. Leiðtogar samtakanna eru nú að undirbúa formlegt bréf til Umboðsmanns almennings í Rússlandi þar sem þess er krafist að hann geri eitthvað í málinu hið fyrsta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×