Erlent

Forseti Fílabeinsstrandarinnar heimsækir norðurhluta landsins í fyrsta sinn í fimm ár

Fólk í Bouake að fagna sameiningu landsins og táknrænni heimsókn Gbagbo til Bouake.
Fólk í Bouake að fagna sameiningu landsins og táknrænni heimsókn Gbagbo til Bouake. MYND/AFP
Laurent Gbagbo, forseti Fílabeinsstrandarinnar, kom í dag í sína fyrstu heimsókn síðan árið 2002 til norðurhluta landsins en þá tóku uppreisnarmenn völdin í honum.

Gbagbo er nú í Bouake sem er fyrrum höfuðvígi uppreisnarmanna. Þar mun hann verða viðstaddur sérstaka athöfn sem kallast „Friðarloginn" þar sem vopn verða brennd til þess að marka upphaf afvopnunarferlis uppreisnarmanna á svæðinu.

Friðarsamkomulag var undirritað við fyrrum uppreisnarleiðtogann Guillaume Soro í mars síðastliðnum, en hann gegnir nú embætti forsætisráðherra í stjórn Gbagbo.

Heimsókn Gbagbo er talin gríðarlega mikilvæg, ekki síst þar sem mikil óvissa ríkir um friðarferlið. Til marks um það er öryggisgæsla vegna heimsóknar hans gríðarmikil. Bæði stjórnarherinn og fyrrum uppreisnarmenn gæta forsetans. Þá koma friðargæsluliðar frá Frakklandi og Sameinuðu þjóðunum einnig að aðgerðunum.

Dagurinn í dag var lýstur almennur frídagur en þegar að athöfnum verður lokið í Bouake verður friðarloginn borinn til 19 staða í landinu til þess að gefa til kynna að landsmenn hafi loks náð sáttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×