Erlent

Endurvann sjálfa sig

Konu í bænum Sittingbourne á Englandi var bjargað af slökkviliðsmönnum eftir að hún féll ofan í tunnu sem notuð er til endurvinnslu.

Konan hafði ætlað að endurvinna föt þegar henni snérist hugur og reyndi hún að teygja sig eftir þeim ofan í tunnuna. Það fór hins vegar ekki betur en svo að konan festist í rauf á tunnunni og gat sig hvergi hreyft.

Annar góðborgari, sem einnig ætlaði að endurvinna föt, sá hvar konan var föst með höfuðið ofan í tunnunni en fæturna upp úr. Hann kallaði til slökkviliðið sem þurfti að beita klippum til að losa konuna.

"Við fengum tilkynningu um að barn væri fast ofan í tunnunni en þegar við komum á svæðið sáum við okkur til mikillar furðu að þetta var fullorðin kona," sagði Mark Innes slökkviliðsmaður í Kent. "Þetta er eitt furðulegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×