Erlent

Brjóstaskorugrein fór fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Hillary

MYND/AP

Stuðningsmenn Hillary Clinton, frambjóðanda í forvali Demókrata til bandarísku forsetakosninganna, nýta sér nú tískugrein sem birtist í Washington Post til að safna fé í kosningasjóð hennar.

Tölvupóstur sem Ann Lewis, einn af ráðgjöfum Hillary, skrifar undir hefur verið sendur vítt og breitt um Bandaríkin þar sem þess er farið á leit við viðtakendur að þeir "taki sér stöðu gegn ruddaskap og ómerkilegheitum í bandarískri menningu."

Í bréfinu er vísað í grein eftir tískublaðamanninn Robin Givhan, sem birtist í Washington Post þann 20. júlí síðastliðinn. Þar fjallaði hann um fötin sem Hillary klæddist á meðan hún flutti ræðu í öldungadeild þingsins um þann mikla kostnað sem fylgir framhaldsmenntun. Hillary klæddist svartri fráhnepptri skyrtu á meðan hún flutti ræðuna. Í greininni í Washington Post sagði tískublaðamaðurinn að örlað hefði fyrir kynþokka í hinu íhaldssama andrúmslofti sem ríki á þinginu.

Í bréfinu sem Lewis skrifaði segir meðal annars. "Hver hefði trúað því að The Washington Post myndi skrifa 746 orða grein um brjóstaskoru Hillary?" Lewis bætti svo við að það væri ekki við hæfi að fjölmiðlar töluðu um líkamsparta frambjóðenda.

"Í hreinskilni sagt er það móðgandi að fjölmiðlar einblíni á líkama kvenna í stað hugmynda þeirra. Það er móðgandi fyrir allar konur sem vilja láta taka sig alvarlega. Það er móðgun við dætur okkar sem og syni sem eru undir stöðugum þrýstingi frá fjölmiðlum um að þroskast hraðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×