Erlent

Sko- ég vil hafa mínar kellingar

Arabískur höfðingi frá Katar seinkaði flugi British Airways frá Linate flugvellinum í Mílanó um nærri þrjá tíma þar sem þrjár konur skyldar honum sátu við hlið karlmanna sem þær þekktu ekki.

Þar sem enginn farþeganna á viðskiptafarrými vélarinnar var tilbúinn til þess að skipta um sæti fór höfðinginn, sem er skyldur ráðandi ættinni í Katar, til flugmannsins, sem hafði þegar ræst vélarnar, að kvarta.

Tilraun var gerð til málamiðlunar en hún fór út um þúfur og endaði með því að höfðinginn og fylgdarlið hans, konurnar þrjár, tveir karlmenn, kokkur og þjónn, stóðu upp í vélinni og komu þannig í veg fyrir flugtak. Flugmaðurinn endaði á því að vísa honum úr vélinni vegna öryggisástæðna.

Flugvélinni, sem var á leið til Lundúna, seinkaði því um þrjá klukkutíma sem varð til þess að um 50 af 115 farþegum misstu af tengiflugum sínum.

Samkvæmt hefðum í Katar mega þarlendar konur ekki blanda geði við karlmenn sem ekki eru skyldir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×