Erlent

Kínverjar hvetja Vesturlönd til þess að sýna þolinmæði vegna Darfur

Jónas Haraldsson skrifar

Kína varði í morgun afstöðu sína til mála í Darfur-héraði Súdan og hvatti Vesturlönd til þess að sýna þolinmæði í málefnum þess. Á sama tíma gagnrýndu Vesturlönd Kína og sögðu að afstaða þeirra gæti dregið úr þeirri velvild sem landið fær vegna Ólympíuleikanna sem fara fram í Peking á næsta ári.

Kínverjar hafa þrýst á stjórnvöld í Súdan að samþykkja sameiginlegt herlið friðargæsluliða frá Sameinuðu þjóðunum og Afríkusambandinu sem á að reyna að binda enda á blóðbaðið í Darfur-héraði. Talið er að fleiri en 200 þúsund manns hafi látið lífið í Darfur og fleiri en 2,1 milljón hafi þurft að flýja heimili sín vegna ástandsins.

Vesturlönd hafa hins vegar lagt til að myndað verði 26 þúsund manna sameiginlegt herlið Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins í skjóli 7. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna en hann heimilar beitingu herafls án tillits til óska ríkisstjórna þeirra landa sem herliðið á að starfa í.

Stjórnvöld í Súdan samþykktu loks eftir margra mánaða viðræður að sameiginlega herliðið fengi að koma til landsins. Þau hafa hins vegar verið á móti því að það verði stofnað í skjóli 7. kaflans. Kínverjar hafa hingað til stutt þá afstöðu stjórnvalda í Súdan og segja að slíkar aðferðir muni ekki áorka neinu.

Kínverjar eiga mikilla viðskiptahagsmuna að gæta í Súdan en þeir eru stærsti erlendi fjárfestirinn í landinu og kaupa auk þess meginþorra allrar þeirrar olíu sem landið framleiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×