Erlent

Fullir geimfarar

MYND/AFP

Geimfarar hjá Nasa hafa að minnsta kosti tvisvar farið út í geim undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í rannsókn sem stendur nú yfir á starfsemi stofnunarinnar og sagt er frá í tímaritinu Aviation Week & Space Technology.

Geimfararnir innbyrgðu mikið magn áfengis minna en hálfum sólarhring áður en geimferju þeirra var skotið á loft en það er brot á reglum Nasa. Samkvæmt þeim þurfa að líða að minnsta kosti tólf tímar frá því að áfengi er haft um hönd og þar til leyfilegt er að hefja geimferð.

Samstarfsfélagar umræddra geimfara létu vita í tvö skipti af ástandi þeirra en engu að síðar voru þeir ekki stöðvaðir. Nöfn geimfaranna hafa ekki verið gefin upp og þegar tímaritið óskaði eftir svörum frá Nasa var því borið við að rannsókninni væri ekki lokið.

Rannsóknin hefur beinst að heilsufari geimfara en hún fór af stað eftir að geimfarinn Lisa Nowak réðst á samstarfskonu sína Colleen Shipman en báðar höfðu átt í ástarsambandi við geimfarann Bill Oefelein. Nowak hafði fyrir árásina keyrt í 12 klukkustundir samfleytt íklædd geimbleyju til að þurfa ekki að stöðva til að komast á klósett. Nasa ákvað í kjölfar atviksins að fara yfir verkferla sína varðandi andlega heilsu geimfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×