Erlent

Enn unnið að lausn 22 Suður-Kóreumanna

Stjórnvöld í Suður-Kóreu vinna enn að því að reyna að tryggja lausn 22 Suður-Kóreumanna sem talibanar halda í gíslingu. Talibanar hafa þegar tekið einn gísl af lífi en þeir krefjast þess að Suður-Kórea dragi alla hermenn sína frá Afganistan og láti lausa talibana í haldi bandamanna.

Einn af yfirmönnum talibana, Mansour Dadullah, segir aðgerðir sem þessar, að ræna erlendum ríkisborgurum og skipta á þeim fyrir félaga sína í fangelsi, reynast mjög vel. Dadullah segist skipa öllum liðsmönnum sínum að ræna útlendingum hvar sem þeir sjá þá og skipta síðan á þeim og félögum sínum. Honum var sjálfum sleppt í skiptum fyrir ítalskan blaðamann fyrr á árinu. Dadullah segist vera í nánum tengslum við al-Kaída.

Vegna tíðra mannrána í Afganistan hefur lögreglan í Kabúl bannað erlendum ríkisborgurum að fara frá borginni án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Þá hafa átök aukist í nágrenni Kabúl á síðastliðnum mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×