Erlent

Nígerísk stjórnvöld höfða mál gegn Pfizer

Jónas Haraldsson skrifar
Nígerískur faðir bendir á mynd af syni sínum sem að fékk tilraunalyfið og varð fyrir heilaskaða.
Nígerískur faðir bendir á mynd af syni sínum sem að fékk tilraunalyfið og varð fyrir heilaskaða. MYND/AP

Nígerísk stjórnvöld hafa lagt fram formlega kæru gegn bandaríska lyfjarisanum Pfizer vegna lyfjaprófanna sem fram fóru í ríkinu Kanó í norðurhluta Nígeríu árið 1996.

Nígeríska stjórnin var þegar búin að höfða einkamál gegn Pfizer og krefst þar 6,5 milljarða dollara, sem samsvarar tæplega 390 milljörðum íslenskra króna, í bóta. Ríkisstjórnin í Kanó hefur einnig höfðað einkamál og krefst þar 2,2 milljarða dollara, sem samsvarar rúmlega 131 milljarði íslenskra króna. Þá hefur hún einnig lagt fram formlega kæru í málinu.

Árið 1996 hélt Pfizer lyfjaprófanir á sýklalyfinu trovafloxacin og gáfu hundruðum barna lyfið. Mörg þeirra dóu vegna aukaverkanna og sum hlutu skaða fyrir lífstíð. Foreldrar barnanna segja að þeim hafi verið gefið lyfið án þess að vita af því.

Þegar hafa fjórir einstaklingar sem lentu í lyfjaprófununum reynt að leita réttar síns í Bandaríkjunum en á endanum var málunum vísað frá. Nígerísk stjórnvöld tóku því málin í sínar hendur og lögðu fram kærur og einkamál á þessu ári í Nígeríu. Þau segja jafnframt að Pfizer hafi aldrei fengið samþykki sitt fyrir því að halda þessar lyfjaprófanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×