Erlent

Íbúar við Thamesá varaðir við flóðum

Óttast er að enn fleiri hús verði flóðunum í Bretlandi að bráð á morgun, þegar flóðbylgjur berast niðureftir Thamesánni. Spáð er áframhaldandi úrkomu sem myndi enn auka á vatnsflauminn.

Íbúar í Reding og neðar við Temsána hafa verið varaðir við því að hjá þeim geti orðið mikil flóð þegar bylgjur berast niðureftir ánni í fyrramálið. Björgunarsveitir eru nú í óða önn við að byggja þar flóðgarða.

Mikil áhersla er lögð á að verja orkuver enda hefur rafmagni slegið út á stórum svæðum auk þess sem hundruð þúsunda manna hafa enn ekki hreint vatn í krönum sínum. Hundruð tankbíla streyma nú til flóðasvæðanna með ferskt vatn.

Nú er einnig farið að huga að möguleikunum á hættulegri mengun og smitsjúkdómum, því ræsi hvarvetna hafa fyllst og óþverri flotið upp.

Þyrlur eru stöðugt á ferðinni auk þess sem bæði fólk og vistir eru fluttar með bátum. Oft eru þeir flutningar innanbæjar.

Síðastliðna nótt náði flóðhæðin hámarki í Oxfordskíri án þess að valda teljandi tjóni. Þó þótti vissara að flytja 50 manns af elliheimili við ána Ock. Neðar við ána bíður fólk hinsvegar milli vonar og ótta eftir að flóðbylgjurnar berist til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×